Innlent

Trúnaðarupplýsingar ræddar í dag

Utanríkismálanefnd Alþingis kemur saman til fundar í dag. Stjórnarandstæðingar hafa ítrekað óskað eftir því að trúnaði verði aflétt á fundargerðum utanríkismálanefndar. "Ég geri ráð fyrir því að sú ósk verði borin upp að nýju, ekki síst í ljósi ummæla Halldórs Ásgrímssonar á Alþingi síðastliðinn mánudag, er hann sagði að sín vegna mætti utanríkismálanefnd birta það sem hún vildi í þessu máli," segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að jafnframt verði óskað eftir því að farið verði yfir álit Eiríks Tómassonar um lögmæti stuðnings við innrás í Írak. "Við erum ósammála niðurstöðum Eiríks og það vekur eftirtekt að í fjölmiðlum segir hann að álitsgerðina hafi hann byggt á frásögn Halldórs Ásgrímssonar um það sem hann hafi sagt á utanríkismálanefndarfundum fremur en orðréttum fundargerðum. Við teljum það afskaplega hæpin vinnubrögð. Við munum jafnframt óska eftir því að fyrir nefndina verði kallaðir aðrir sérfræðingar, svo sem Ragnar Aðalsteinsson, og álits þeirra óskað á grundvelli nákvæmlega sömu gagna og Eiríkur Tómasson fékk," segir Össur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×