Innlent

Fagnar endurskoðun laga

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands fagnar því að ráðamenn vilji endurskoða lög um eftirlaun Alþingismanna og æðstu embættismanna ríkisins. Jafnframt krefst miðstjórnin þess að þetta tækifæri verði notað til að stíga raunveruleg skref í þá átt að samræma lífeyrisrétt allra landsmanna. Miðstjórn ASÍ áréttar í samþykkt sinni í gær að þorri launafólks á Íslandi standi nú frammi fyrir þeirri staðreynd að vegna aukinnar tíðni örorku og hærri lífaldurs þurfi að endurskoða lífeyrisréttindi þrátt fyrir að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð hafi verið hækkað í síðustu samningum. Á sama tíma búi ráðherrar, alþingismenn og aðrir opinberir starfsmenn við ríkistryggð lífeyrisréttindi. Ljóst sé að mikill meirihluti landsmanna sé þeirrar skoðunar að samræma beri lífeyrisrétt allra landsmanna. Því leggur miðstjórn ASÍ til að unnið verði í samráði við aðila vinnumarkaðarins að því að jafna lífeyrisréttindin líkt og gert hefur verið í nágrannalöndunum. Minnt er á að Alþýðusambandið hafi lýst yfir andstöðu við samþykkt laganna um eftirlaun æðstu embættisamanna og sú litla reynsla sem hafi fengist af þeim sýni svo ekki verði um villst að þau séu ósanngjörn og óeðlileg í alla staði. Þess vegna beri að fella lögin úr gildi enda hafi um 80 prósent landsmanna verið andvíg þeim á sínum tíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×