Lífið

Er ætlað að elska hvort annað

Þótt þau séu mjög ólík þá er þeim ætlað að elska hvort annað. Þetta er meðal þess sem segir um Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, og Dorrit Moussaieff, eiginkonu hans, í nýjasta tölublaði breska tímaritsins Hello. Dorrit Moussaieff foretafrú er í einkaviðtali í nýjasta tölublaði breska tímaritsins Hello, en blaðið kemur í bókaverslanir hér á landi eftir nokkra daga. Yfirskrift viðtalsins er: Hið ótrúlega líf milljónamæringsins sem varð forsetafrú Íslands. Þar greinir Dorrit frá lífinu á Íslandi og því hvernig hún hefur tekið ástfóstri við landið og fjölskyldu Ólafs Ragnars, eiginmanns síns. Í viðtalinu kemur meðal annars fram að bakgrunnur þeirra sé afar ólíkur, hún hafi verið alin upp við mikið ríkidæmi og eigi ríka og fræga fólkið meðal vina en hann sé sonur rakara og fyrrverandi háskólaprófessor. En þrátt fyrir að þau séu ólík hafi örlögin ætlað þeim að elska hvort annað, segir í viðtalinu í Hello. Haft er eftir Ólafi Ragnari að þegar hann hafi kynnst Dorrit hafi það ekki verið á dagskránni hjá sér að finna sér konu, þar sem hann hafi þá nýverið búinn að missa eiginkonu sína, Guðrúnu Katrínu. Hann hafi hins vegar hrifist svo af Dorrit að hann hafi elt hana til Aspen í Bandaríkjunum þar sem hún var í fríi í stað þess að bíða í sjö mánuði eftir því að hún kæmi í heimsókn til hans til Íslands. Dorrit, sem var fráskilin þegar hún kynntist Ólafi Ragnari, segir í viðtalinu við Hello að fyrra hjónaband sitt hafi verið stór mistök. Hún segist hafa tekið miklu ástfóstri við Ísland og við dætur Ólafs Ragnars, þær Tinnu og Döllu, sem hún segir sína bestu vini á Íslandi. Segir forsetafrúin einnig að ef ekki hefði komið til vinskapur hennar við þær þá væri hún líklega ekki búsett á Íslandi í dag.  Dorrit segist meðal annars verja tíma sínum í að kynna Ísland og íslenska menningu sem hún telji einstaka. Hún lofsamar íslenska tísku og hönnun og segir það einkenna Íslendinga að þeir vilji aðeins það besta.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.