Innlent

Fasteignaverð hækkar áfram

Þess má vænta að fasteignaverð eigi eftir að hækka nokkru meira á næstunni samkvæmt endurskoðaðri efnahagsspá fjármálaráðuneytisins fyrir árin 2005 til 2010. Búist er við því að verðið hækki þar til að framboð á nýju húsnæði jafnast á við eftirspurn. Spáð er að í ár verði lokið við hátt í 3.000 íbúðir sem er um 1.200 íbúðir umfram árlega þörf landsmanna. Að mati fjármálaráðuneytisins bendir það til þess að jafnvægi myndist á fasteignamarkaði fyrr en seinna og jafnvel á næsta ári. Könnun á aðstæðum á byggingamarkaði á höfuðborgarsvæðinu bendir til að lóðaframboð í Reykjavík verði ekki aukið til að mæta allri byggingareftirspurn og því eru það einkum byggingaverktakar, sem þegar eiga lóðir, sem geta mætt aukningu hennar. Á höfuðborgarsvæðinu hefur framboð á lóðum aukist mest í Mosfellsbæ og Hafnarfirði en talsverð aukning í byggingu íbúða hefur átt sér stað á öllu suðvesturhorninu frá Akranesi til Árborgarsvæðis og svo á Reykjanesi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×