Innlent

Rúm hálf milljón manna fær aðstoð

Félög Rauða krossins og Rauða hálfmánans um allan heim hafa safnað sem nemur tæplega 80 milljörðum íslenskra króna til hjálpar- og uppbyggingarstarfs á hamfarasvæðunum. Af þeirri upphæð koma 85 prósent úr fjársöfnunum meðal almennings. "Fólk á Íslandi og um allan heim hefur brugðist óhemju vel við og reyndar svo vel að nú teljum við okkur geta staðið myndarlega að hjálpar- og uppbyggingarstarfi á flóðasvæðunum til næstu ára með því fé sem safnast hefur," segir Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri RKÍ, sem kveður Rauða krossinn ekki munu halda áfram fjársöfnun vegna flóðanna. Á þeim 31 degi sem liðinn er frá jarðskjálftanum hafa 77 flugvélar hlaðnar hjálpargögnum og 18 sérhæfðar neyðarsveitir verið sendar á hamfarasvæðin á vegum Rauða krossins. Alls hafa níu þúsund þjálfaðir sjálfboðaliðar og 300 alþjóðlegir sendifulltrúar unnið að hjálparstörfum á vettvangi. Á vegum RKÍ eru fimm sendifulltrúar við hjálparstörf á skaðasvæðum og tveir til viðbótar fara utan á næstu dögum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×