Innlent

Fjármunir til reiðu í uppbyggingu

Tveir íslenskir sendifulltrúar á vegum Rauða kross Íslands eru á förum til hamfarasvæðanna við Indlandshaf til viðbótar þeim fimm, sem fyrir eru á svæðinu. Verulegir fjármunir eru handbærir til uppbyggingarstarfs í framtíðinni. Á þeim mánuði sem liðinn er síðan hamfarirnar urðu hafa 77 flugvélar hlaðnar hjálpargögnum og 18 sérhæfðar neyðarsveitir verið sendar á hamfarasvæðin á vegum Alþjóða Rauða krossins. Þá hafa níu þúsund þjálfaðir sjálfboðaliðar og þrjú hundruð alþjóðlegir sendifulltrúar unnið að hjálparstörfum á vettvangi. Rauði krossinn veitir nú 115 þúsund manns hreint drykkjarvatn á degi hverjum og sér um 40 þúsund manns fyrir næturskjóli og mat. Um 11 þúsund manns hafa notið sálræns stuðnings af hálfu Rauða krossins og ýmiss konar hjálpargögn hafa náð til 69 þúsund manns. Þá fá um eitt þúsund manns læknisaðstoð á neyðarsjúkrahúsum samtakanna á dag og í heild hefur aðstoð náð til hálfrar milljónar manna á svæðinu. Félög Rauða krossins og Rauða hálfmánans um allan heim hafa safnað tæpum 80 milljörðum króna, þar af 85 prósentum frá almenningi. Ekki er búið að eyða nema hluta af þessum fjármunum til hjálparstarfs þannig að nú er svigrúm til að geta staðið myndarlega að hjálpar - og uppbyggingarstarfi á hamfarasvæðunum í framtíðinni, að sögn Sigrúnar Árnadóttur, framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×