Lífið

Breakbeat-strákarnir og Klute

Fókus fylgdi DV í gær eins og vanalega. Blaðið er að venju pakkað af skemmtilegu efni. Djammkortið er á sínum stað, menntaskólarnir eru grandskoðaðir og Addi Exos talar um ástríðu sína, teknó. Einnig er viðtal við aðstandendur breakbeat.is sem eru ekki af baki dottnir þrátt fyrir að hafa misst þáttinn sinn þegar X-ið fór undir í síðustu viku.   "Það er reglan frekar en undantekningin að þessi stóru kvöld eru vel heppnuð. Við búumst við fjögur til fimm hundruð manns. Klute er líka Íslandsvinur sem fólkið þekkir," segir Kalli, einn af umsjónarmönnum breakbeat.is, sem stendur fyrir megatjútti, árslistakvöldi, á Þjóðleikhúskjallaranum á morgun. Kvöldið mun síðan ná hámarki þegar breski tónlistarmaðurinn Klute stillir sér upp. Kalli hitar upp fyrir hann með árslistanum ásamt bræðrum sínum í Breakbeat.is-genginu, Lella og Gunna Ewok. Klute hefur þrisvar sinnum spilað hérlendis áður og Kalli segir hann hörkufæran. "Bæði sem plötusnúður og tónlistarmaður. Breiðskífan sem hann gaf út í fyrra er einmitt í toppbaráttunni á árslistanum okkar. Hún heitir No One´s Listening Anymore en fólk er pottþétt að hlusta. Þetta er skyldueign," segir Kalli og vill ekkert frekar gefa upp um árslistann. Hann verður kynntur á laugadaginn, hvort sem það verður í útvarpi, netvarpi eða læf á staðnum. "Fótunum var kippt undan okkur í þessum útvarpsbreytingum og við erum að reyna að finna okkur samastað. Þetta kom auðvitað eins og þruma úr heiðskíru lofti en allt er hverfult. Við endum á öldum ljósvakans einhvern tímann á næstunni," segir Kalli en þeir félagar voru með vikulegan þátt á X-inu, þar til stöðinni var lokað í síðustu viku. Breakbeat-menningin ein af sterkari underground-tónlistarstefnum Íslands. Með furðu stóran og góðan kjarna, sem fylgist með útvarpsþættinum, vefsíðunni og fyllir skemmtistaði þegar haldin eru þar mánaðarleg Breakbeat.is-kvöld. Að sögn Kalla eru þau langlífustu djammkvöld Reykjavíkurborgar. "Föstu kvöldin eiga einmitt fimm ára afmæli um þessar mundir. Við ætlum að halda upp á það í mars eða apríl," segir Kalli en föstu kvöldin eru jafnan haldin fyrsta fimmtudag hvers mánaðar. Frá og með þriðja febrúar verða þau haldin á Pravda. Þangað til getur fólk haldið sér í takti með því að fara á heimasíðuna breakbeat.is, þar sem finna má allt sem viðkemur tónlistarstefnunni. Jah, eða mæta og hlýða á Klute og árslistann á Þjóðleikhúskjallaranum á morgun. Húsið opnar klukkan 23 og inn kostar þúsund kall.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.