Innlent

Óþreyjufullar eftir hrútnum

Kindurnar í Suðurey í Vestmannaeyjum eru orðnar svo óþreyjufullar eftir að hrúturinn komi til þeirra úr landi nú á fengitímanum að þær hlaupa fram klettabrúnirnar í hvert skipti sem þær heyra í báti sigla hjá, í von um að þar sé kavalerinn um borð á leið til þeirra. 25 kindur hafa vetursetu í eynni. Kindur eru í fleiri úteyjum og er venja að ferja hrúta út í eyjarnar á jólaföstunni en þá hefst fengitíminn og lömbin koma undir. Með harðfylgi tókst að koma hrútum út í hinar eyjarnar 9. desember en þá og síðan hefur brimað svo mikið við Suðurey að ekki hefur verið viðlit að lenda þar til að koma hrútnum í land. Eyjabændur í Suðurey ráðgera nú leiðangur á björgunarskipinu Þór um helgina og á að freista þess að koma hrútnum upp á svonefndan Steðja í lendingunni og hjálpa honum síðan áleiðis upp á eyjuna. Annars segja eyjabændur að þótt hrútarnir séu stundum smeykir við klifrið til að byrja með, þá gleymist þeim óttinn á svipstundu ef þeir heyra jarmað að ofan og taki þeir þá strikið upp. Og víst er að þeir eru í góðu formi til þess því eyjabændur staðhæfa að hrútarnir haldi í við sig með fæði síðustu dagana fyrir fengitímann til að vera í toppformi þegar þar að kemur. Þá sé ekki einu sinni hægt að freista þeirra með uppáhaldsgóðgæti, svo staðfastir séu þeir í að standa sig þegar til kemur. Ef leiðangurinn um helgina fer ekki að óskum er hætt við að engin lömb fæðist í Suðurey í vor. Ámóta illa horfði um svipað leyti fyrir nokkrum árum en þá lenti þyrla Landhelgisgæslunnar óvænt í Eyjum og náðust samningar í snatri við áhöfnina um að skutla hrútnum út í Suðurey með þyrlunni og þá gekk allt upp. En nú stefnir sem sagt á að Slysavarnafélagið Landsbjörg hlaupi undir bagga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×