Innlent

Esso og Olís taka til baka hækkun

Bæði Esso og Olís hafa tekið til baka tveggja krónu hækkun á bensínlítrann frá því fyrr í vikunni en hvorki Skeljungur né Atlantsolía hækkuðu verðið í kjölfar hinna. Þessi atburðarás gefur óneitanlega vísbendingu um samkeppni. Essó hækkaði verðið á mánudag en tók hækkunina til baka undir kvöld á þriðjudag. Rétt áður, á þriðjudag, hafði Olís hækkað til samræmis við Essó en tók þá hækkun til baka snemma í gærmorgun. Essó gaf þá skýringu á hækkuninni á mánudag að hún væri vegna nýrra reglna Evrópusambandsins um lægra brennisteinsinnihald í bensíni en tíðkast hefur og að það sé dýrara. Atlantsolía hefur selt allt sitt bensín í heilt ár samkvæmt nýju reglunum og hefur samt verið leiðandi í lágu bensínverði. Reglur um brennisteinsminni gasolíu tóku líka gildi um áramót en miðað við heimsmarkaðsverð á því og eldri gerðinni snemma í desember síðastliðnum hefði nýja gasolían átt að verða u.þ.b. fjórum krónum dýrari en sú eldri, sem sagt hækkun um fjórar krónur um áramót. Atlantsolía hefur frá upphafi selt nýju olíuna og Skeljungur byrjaði að dreifa henni á allar sínar stöðvar síðastliðið haust. Olís og Essó hafa þá tekið hækkunina á sig sjálf til að fara ekki upp fyrir hin félögin í verði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×