Innlent

Essó afturkallaði hækkun

Essó hefur afturkallað tveggja krónu hækkun á eldsneyti. Olíufélagið hækkaði á mánudaginn verð á 95 oktana bensíni um tvær krónur á lítra, en dísilolíu, flotaolíu og svartolíu um eina krónu. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Essó var hækkun á heimsmarkaðsverði ástæðan fyrir hækkuninni á mánudaginn. Í fyrradag afturkallaði Essó þessar hækkanir án frekari skýringa á heimasíðu sinni. Í kjölfar hækkunar Essó hækkaði Olís verð á eldsneyti hjá sér en dró hækkunina síðan til baka líkt og Essó. Hugi Hreiðarsson, upplýsingafulltrúi Atlantsolíu, segir þetta vissulega vekja athygli því ljóst sé að heimsmarkaðsverð hafi ekki lækkað á þessum eina sólarhring. Hjörleifur Jakobsson, forstjóri Essó, segir að verðið hafi verið lækkað aftur vegna samkeppninnar á markaðnum. "Það var alveg full ástæða fyrir þessari hækkun á mánudaginn," segir Hjörleifur. "Ef samkeppnisaðilar fylgja hins vegar ekki hækkunum eftir þá verðum við að bregðast við því og það gerum við venjulega innan tuttugu og fjögurra tíma. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þetta gerist á bensínmarkaðnum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×