Innlent

Fleiri þarf í iðngreinar

Það er áhyggjuefni hversu fáir sækja iðn- og tæknimenntun hér á landi og það þarf að breyta ríkjandi viðhorfum í garð iðnmenntunar þar sem aukin þörf er fyrir verk- og iðnmenntað fólk. Þetta var meðal þess sem kom fram á málþingi í tilefni Menntadags iðnaðarins á þriðjudag. "Samtök iðnaðarins hafa minnt rækilega á þetta vandamál. Það virðist vera að bera árangur því það hefur mátt greina breytingar í þessum málum á undangengnum tveimur árum," segir Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka iðnaðarins, sem hélt erindi á málþinginu. "Það má til dæmis greina aukningu í Tækniháskólanum og í ákveðnum greinum í iðnskólunum." Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra ávarpaði fundargesti og fjallaði um hugmyndir að breyttri námsskipan til stúdentsprófs og áhrif hugsanlegrar styttingar á starfsmenntun samhliða breyttu bóknámi. Þá lýsti hún áhyggjum sínum yfir hve fáir hefja nám á sviði iðn- og tæknimenntunar og sagði það vera á ábyrgð allra að breyta ríkjandi viðhorfum í garð iðnmenntunar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×