Innlent

Mjöll Frigg gæti átt rétt á bótum

Kópavogsbær gæti verið skaðabótaskyldur hafi Mjöll Frigg fengið vilyrði bæjaryfirvalda fyrir verksmiðju að Vesturvör í Kópavogi. Það er mat Viðars Lúðvíkssonar hæstaréttarlögmanns. Viðar segir þó margt koma til skoðunar bótaábyrgðar, til dæmis hvaða upplýsingar fyrirtækið hafi gefið upp og hvaða forsendur bæjaryfirvöld settu hafi þeir gefið vilyrðið. Flosi Eiríksson, samfylkingarmaður í bæjarráði Kópavogs, segir eiganda Mjallar Friggjar, Hinriki Morthens, hafa sagt og sýnt fram á með tölvupósti að hann hafi haft samband við yfirvöld í bænum fyrir flutninginn á fundi ráðsins í síðustu viku. Flosi segir brýnt að senda fyrirtækinu skýr skilaboð um að bæjaryfirvöld vilji ekki hafa starfsemi þess á hafnarsvæðinu. Davíð Egilsson, forstjóri Umhverfisstofnunnar sem hóf rannsókn á málinu að beiðni umhverfisráðuneytisins, segir skipulagsyfirvöld í Kópavogi þurfa að gera upp við sig hvort starfsemi Mjallar Friggjar eigi að vera við Vesturvör í Kópavogi eða ekki. Það sé niðurstaða stofnunarinnar eftir fund sem hún átti með forsvarsmönnum Mjallar Friggjar á mánudag. "Þegar ákvörðunin liggur fyrir er hægt að bregðast við: Annað hvort með því að auglýsa starfsleyfi sem fer þá í grendarkynningu eða að fyrirtækið þurfi að flytja," segir Davíð. Viðar segir mikið þurfa að koma til svo bótaábyrgð sé lögð á bæjaryfirvöld verði tjón á svæðinu. Sama eigi við um eftirlitsaðila bæjaryfirvalda. Þeirra hlutverk sé fyrst og fremst að draga úr líkum tjóna. Hafi bæjaryfirvöld veitt fyrirtækinu bráðabirgðaleyfi flokkist það sem starfsleyfi. Munnlegt leyfi nægi, þó það séu ekki góðir stjórnsýsluhættir. Fyrirtækið sé því líklega ekki bótaskylt verði tjón nema það sýni af sér gáleysi eða ásetning.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×