Menning

Bara svona skokkur

"Þetta á mjög vel við mig," segir Eva Bjarnadóttir sem er á fyrsta ári í klæðskeradeild Iðnskólans í Reykjavík og hrósar happi yfir að hafa komist þar inn. Hún fór nefnilega til Keníu í haust og hugðist dvelja þar í eitt ár við barnakennslu á vegum alþjóðlegra ungmennaskipta en veiktist illa. Kom því heim en hafði hvergi sótt um skólavist. "Ég náði að troða mér hér inn," segir hún brosandi. Af námsgreinunum á haustönn í Iðnskólanum nefnir hún teikningu, sniðagerð og prufusaum, til dæmis á vösum af ýmsum gerðum. "Það er verið að þjálfa nákvæmni og tækni sem starfið krefst. Maður getur ekki bara fengið nýtt efni þegar verið er að sauma fyrir viðskiptavin," bendir hún á. Námið í deildinni tekur fjögur ár og skiptist í klæðskeranám og kjólameistaranám en þó ekki fyrr en á síðustu önninni. Eva segir auðvelt að ljúka sveinsprófi í báðum greinum því ekki þurfi að bæta við nema einni önn til þess. En skyldi hún vera vön saumaskap. "Já, bara heima hjá mér," svarar hún hikandi og bætir við. "Ég hef ekki verið í saumanámi áður nema í einum valáfanga í MS en hef saumað á sjálfa mig mér til tómstundagamans ef mig hefur vantað föt." Þegar betur er að gáð kemur í ljós að hún saumaði sjálf á sig kjól fyrir ferminguna en gerir ekki mikið úr því afreki. "Það var mjög einfaldur kjóll, bara svona skokkur." Eva segir fatahönnun og klæðskera-og kjólameistaraiðn oft ruglað saman," segir hún. "Iðnnámið gengur út á að þjóna viðskiptavini sem pantar ákveðna flík og kemur með útlitsmynd eða hugmynd að henni. Auðvitað getur maður farið út í hönnun en það er ekki það sem við erum að læra." Hún er ánægð í saumaskapnum þótt hún sjái ekki fyrir sér hálaunastarf að námi loknu. "Þetta er ekkert peningadjobb en það verða þó vonandi alltaf einhverjir sem vilja láta sérsauma á sig föt."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×