Innlent

Neytendasamtökin styrkja prófmál

Stjórn Neytendasamtakanna hefur ákveðið að samtökin styðji fjárhagslega við bakið á skaðabótamáli einstaklings gegn olíufélögunum vegna verðsamráðs þeirra. Jóhannes Gunnarsson, formaður samtakanna, segir að þau geti ekki sjálf farið í mál fyrir hönd neytenda. Þess vegna hafi þessi leið verið valin og það hafi verið óumdeilt í stjórninni. Hann segir að nú séu samtökin að meta hugsanlegt tjón almennings af verðsamráðinu. Hann hvetur fólk sem á eldsneytisnótur frá árinu 1995 til 2002 til að hafa samband við Neytendasamtökin, bæði til þess að hjálpa við að meta tjónið og vegna hugsanlegra málaferla. Enn er ekki búið að ákveða fyrir hönd hvaða einstaklings málið verði höfðað. "Það er verið að fara yfir þau gögn sem komin eru og ákvörðun um það verður tekin á næstunni." Jóhannes segir erfitt að giska á hvað málaferlin muni kosta Neytendasamtökin. "Málið er hins vegar það alvarlegt að við förum í þetta óhikað. Olíufélögin fóru þannig með neytendur að það er ekki hægt að standa hjá aðgerðalaus. Það er búið að hafa af þeim mikla fjármuni. Ég tala nú ekki um ef við tökum óbeint tjón vegna hækkunar neysluvísitölu sem hefur leitt til hækkunar á verðtryggðum skuldum heimilanna. Það tjón verður aldrei sótt í sjóði félaganna þannig að neytendur eiga aðeins möguleika á því að ná hluta af því tjóni til baka sem þeir hafa orðið fyrir." Eggert B. Ólafsson lögmaður mun sjá um málflutning í málinu fyrir hönd neytenda. Hann segir að nú sé unnið að því að forma kröfugerð og málið verði þingfest á næstunni. "Það verður gert á næstu vikum. Við byrjum á því að senda olíufélögunum kröfubréf," segir Eggert. "Olíufélögin hafa því tækifæri til að greiða tjónið án þess að það fari fyrir dómstóla."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×