Innlent

Kostnaður hækkar meira en laun

Kostnaðarliðir heimilanna hækkuðu meira um áramót en laun og ýmsar bætur að mati Alþýðusambands Íslands. Að mati sambandsins má ekki mikið út af bera til að forsendur kjarasamninga bresti og kjarasamningum verði sagt upp í haust. Í yfirliti ASÍ yfir helstu breytingar á launum, verðlagi og sköttum í upphafi árs kemur fram að verðbólga hafi hækkað um fjögur prósent síðustu tólf mánuði og hún hafi ekki mælst meiri síðan um mitt ár 2002. Ástæður þess eru taldar meðal annars hækkun á heimsmarkaðsverði á olíu og hækkun á húsnæðisverði. Þá hafi gjaldskrár opinberra þjónustu hækkað að meðaltali um 4,4 prósent. Það hafi átt stóran þátt í að vega upp ávinning almennings af verðlækkunum vegna útsalna á fatnaði, lækkunar á bensíni undanfarið og styrkingu krónunnar. Meðal hækkana um áramótin eru tæp sautján prósenta hækkun á almennum komugjöldum í heilbrigðiskerfinu. Meðal hækkana hjá sveitarfélögunum eru nefnd hækkun útsvars í Reykjavík og Kópavogi og umtalsverðar hækkanir á gjaldskrám leikskóla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×