Lífið

MR eða Borgó detta út

Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna, er í fullum gangi þessa dagana í útvarpinu. Í dag fer fram blóðug barátta í keppninni þegar lið Borgarholtsskóla og Menntaskólans við Reykjavík mætast í annarri umferð. Mörgum þykir eftirsjá með þessum liðum þar sem þau hafa staðið sig vel undanfarin ár og ansi hart að þau detti út áður en keppnin fer í sjónvarpið. "Þetta er mjög klaufalegt þar sem þetta eru langstigahæstu skólarnir úr fyrstu umferð. Þeir voru báðir með um þrjátíu stig á meðan næsti skóli á eftir var með tuttugu og eitt stig," segir Stefán Pálsson, dómari keppninnar. Það kaldhæðnislega við allt saman er svo að meðal annars fulltrúar þessarra beggja skóla komu í veg fyrir reglu sem hefði tryggt að þessi lið hefðu ekki dregist saman fyrr en í sjónvarpið væri komið. Sjónvarpið lagði til tvær reglur, önnur var sú að liðin sem komust í sjónvarp í fyrra myndu ekki dragast saman í fyrri umferð. Hin reglan hljómaði þannig að liðin sem komust í undanúrslit í fyrra myndu ekki dragast saman fyrr en í sjónvarpi. Fjögurra manna nefnd framhaldsskólanna samþykkti fyrri tillöguna en ekki þá síðari. Í nefndinni voru einn MR-ingur og einn Borghyltingur. "Þeir hljóta að ergja sig aðeins á þessu núna. Það er auðvitað leiðinlegt þegar skólarnir sem leggja mest á sig lenda í þessu," segir Stefán.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.