Innlent

Gengi krónunnar í sögulegu hámarki

MYND/Vísir
Gengi krónunnar náði sögulegu hámarki í gær, þegar gengisvísitalan mældist lægri en hún hefur verið í fjögur og hálft ár. Á rúmum þremur árum hefur gengi krónunnar hækkað um meira en þriðjung. Í Morgunkorni Íslandsbanka kemur fram að gengisvísitalan hafi farið niður í 111,4 í lok dags í gær og hefur hún ekki verið lægri í fjögur og hálft ár. Gengisvísitalan er mælikvarði á stöðu krónunnar og því lægri sem hún er því sterkari er krónan. Frá því að gengi krónunnar fór lægst í lok árs 2001 hefur það hækkað um ríflega þriðjung. Á sama tímabili hefur dollarinn farið úr rúmum 110 krónum niður í 62 og evran úr 97 krónum niður í 81 krónu. Þessar hræringar hafa leitt til þess að innflutningur hefur aukist en á móti hefur dregið úr vexti útflutnings. Þá hefur breytingin á gengi krónunnar átt þátt í að skapa þann mikla viðskiptahalla sem nú er á íslensku efnahagslífi. Á móti hafa erlendar skuldir hins vegar lækkað í krónum talið og þar með vaxtagreiðslur af þeim. Gengishækkun krónunnar hefur einnig átt sinn þátt í því að verðbólgan hefur ekki verið hærri en nú á tímabilinu frá 2001. Munurinn á innlendum og erlendum skammtímavöxtum hefur aukist að undanförnu og er það ein af ástæðunum fyrir þessari miklu hækkun á gengi krónunnar. Nú stendur þriggja mánaða vaxtamunur í ríflega 6 prósentustigum og hefur aukist um helming á einu ári. Þessi mikli munur hefur hvatt innlenda aðila til að taka lán í útlöndum. Mikið hefur verið um slíkar lántökur að undanförnu og á það stóran þátt í hækkun á gengi krónunnar. Rekja má muninn á innlendum og erlendum vöxtum að nokkru til aðgerða Seðlabankans sem hefur hækkað stýrivexti sína um tæplega þrjú prósent á umræddu tímabili.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×