Innlent

Fleiri fá ríkisborgararétt

Aldrei hefur jafnmörgum verið veittur íslenskur ríkisborgararéttur og í fyrra en þá fengu 637 útlendingar ríkisborgararétt. Fjölgunin á milli ára er veruleg því árið 2003 fengu 436 útlendingar ríkisborgararétt og árið 2002 voru þeir 364 samkvæmt tilkynningu frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Auk þessara 637 útlendinga fengu jafnframt 182 börn þeirra íslenskan ríkisborgararétt, sem einnig er fjölgun frá síðustu árum, en árið 2003 fengu 109 útlensk börn ríkisborgararétt með foreldri sínu og árið þar áður fengu 87 börn ríkisborgararétt með þeim hætti. Af 637 útlendingum fengu 594 ríkisborgararétt með bréfi frá dóms- og kirkjumálaráðherra en 43 fengu ríkisborgararétt með lögum frá Alþingi. Flestir hinna 637 nýju Íslendinga eru fæddir í Póllandi, 108 alls, en næstflestir eru fæddir í fyrrum Sovétríkjunum, eða 56. Frá fyrrverandi Júgóslavíu koma 52, frá Taílandi 49 og 45 frá Filippseyjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×