Lífið

Fann augnlinsu í sundlaug

Kristjáni Magnússyni, sundlaugarverði í Vesturbæjarlaug, tókst fyrir skömmu hið ótrúlega þegar hann fann augnlinsu í lauginni sem ítalskur ferðamaður hafði týnt. Ítalinn bað starfsmenn sundlaugarinnar um að koma sér til hjálpar enda var um svokallaða "eilífðarlinsu" að ræða, linsur sem eiga að endast von úr viti. "Þetta eru sextíu tonn af vatni sem ég leitaði í. Við erum með sérstakar ryksugur til þess að hreinsa sandinn úr botninum á lauginni. Ég vissi af þessari týndu linsu svo ég fór vandlega í gegnum ryksugusíuna og fann linsuna," segir Kristján. "Þetta er víst svona linsa sem fólk á ekki að taka úr sér." Aðspurður hvort hann hafi ekki orðið hvumsa við beiðninni um að finna augnlinsu í sundlauginni segir Kristján: "Mér brá ekkert við það að vera beðinn um að finna linsu í lauginni. Ég er vanur svona ævintýrum og í fyrra fann ég lítinn demantseyrnalokk. Þeir í afgreiðslunni sögðu því Ítalanum að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þessu því að á staðnum væri maður sem hefði fundið ótrúlega hluti. Hann var auðvitað ánægður þegar ég fann linsuna og sagðist alltaf ætla að koma í Vesturbæjarlaugina í sund." Kristján hefur unnið sem sundlaugarvörður síðastliðin þrjú ár. "Ég vann áður hjá Slysavarnafélaginu þar sem ég var vélstjóri á björgunarbátnum. Núna er ég orðinn svo gamall að það er voðalega þægilegt að vera þarna í sundlauginni." Kristján hefur komið við sögu á fleiri sviðum því hann sinnir einnig myndlistinni sem áhugamáli. "Jú, ég hélt málverkasýningu fyrir nokkrum árum, við vélstjórarnir, við getum allt," segir hann og hlær.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.