Lífið

The Aviator bar sigur úr býtum

Kvikmyndin The Aviator í leikstjórn Martins Scorsese var sigurvegari Golden Globe-verðlaunahátíðarinnar í Hollywood í fyrrinótt. Hún var valin besta dramatíska myndin auk þess sem Leonardo DiCaprio var valinn besti dramatíski leikarinn og Howard Shore fékk verðlaun fyrir bestu tónlistina. Sideways aftur á móti var valin besta myndin í flokki gaman- eða söngvamynda. Í þeim flokki var Jamie Foxx kjörinn besti leikarinn fyrir hlutverk sitt í Ray, sem er byggð á ævi tónlistarmannsins látna Ray Charles. Foxx var tilnefndur til þrennra verðlauna á hátíðinni, sem er nýtt met hjá leikara, en bar ekki sigur úr býtum í hinum tveim flokkunum. Annars vegar var um að ræða besta aukahlutverkið fyrir myndina Collateral og hins vegar besti leikarinn í sjónvarpsmynd eða stuttum sjónvarpsþáttum fyrir Redemption. "Lífið leikur við mig um þessar mundir," sagði Foxx , sem er talinn líklegastur til að vinna Óskarsverðlaunin þann 27. febrúar. "Ég vildi óska að ég gæti dreift þessum tilfinningum mínum þannig að allir myndu elska hver annan aðeins meira." Hilary Swank fékk verðlaun sem besta leikkonan í dramatískri mynd fyrir Million Dollar Baby og Annette Bening var best í gaman- eða söngvamynd fyrir hlutverk sitt í Being Julia. Þær stöllur kepptu einmitt um Óskarsverðlaunin fyrir fimm árum. Þá vann Swank verðlaunin fyrir Boys Don´t Cry á meðan Bening þurfti að lúta í lægra haldi fyrir hlutverk sitt í American Beauty þrátt fyrir að hafa verið talin sigurstranglegri. "Þú leiðbeindir okkur svo snilldarlega og þú hefur aldrei staðið þig betur á ferlinum," sagði Swank um leikstjóra myndarinnar, gamla jaxlinn Clint Eastwood, sem var kjörinn besti leikstjórinn. Þá fengu Mick Jagger úr Rolling Stones og Dawe Stewart úr Eurythmics Golden Globe fyrir lagið Old Habits Die Hard úr Alfie. Sjónvarpsþátturinn Desperatie Housewifes var valinn sá besti í gaman- eða dramaflokki og Nip/Tuck fékk verðlaun sem besti dramatíski þátturinn. Robin Williams, fimmfaldur Golden Globe-verðlaunahafi, hlaut Cecil B. DeMille-heiðursverðlaunin fyrir farsælan kvikmyndaferil sinn. Verðlaunin tileinkaði hann vini sínum Christopher Reeve sem lést á síðasta ári.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.