Innlent

Aldrei safnast meira

"Þetta er fram úr okkar björtustu vonum," segir Elín Þ. Þorsteinsdóttir verkefnisstjóri um viðbrögð almennings við söfnuninni Neyðarhjálp úr norðri. "Ég held að þetta séu þau bestu viðbrögð sem við höfum upplifað í söfnun." Íslendingar gáfu á annað hundrað milljónir króna til hjálpar- og uppbyggingarstarfs á hamfarasvæðunum í Asíu og Afríku eftir flóðbylgjuna miklu á annan í jólum sem kostaði um 160 þúsund manns lífið. Um klukkan tíu í gærkvöldi höfðu safnast 110 milljónir króna í söfnuninni, mest á meðan á beinni útsendingu sjónvarpsstöðvanna þriggja stóð. Fyrr um daginn hafði fé verið safnað í verslunarmiðstöðvunum Kringlunni og Smáralind í Reykjavík og á Glerártorgi á Akureyri auk þess sem söfnunarsímar hafa verið opnir síðustu daga. Þar var boðið upp á skemmtiatriði og sjálfboðaliðar gengu um með söfnunarbauka. Fjöldi fyrirtækja og einstaklinga lögðu hönd á plóg. Auk þess sem hringt var inn með framlög voru ýmsir gripir boðnir upp til styrktar hjálparstarfi. Þar vakti meðal annars athygli að Jóhannes Jónsson í Bónus keypti jakkaföt Björgólfs Guðmundssonar á tíu milljónir króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×