Innlent

Neituðu að sitja fyrir svörum

Fulltrúar Impregilo neituðu að sitja fyrir svörum hjá Félagsmálanefnd Alþingis í morgun ef fulltrúar frá verkalýðshreyfingunni yrðu viðstaddir. Gert hafði verið ráð fyrir því að þeir sætu samtímis fyrir svörum en horfið frá því að kröfu ítalska verktakafyrirtækisins. Til fundarins var boðað til að fjalla um ágreining ASÍ og Impregilo um aðbúnað og kjör starfsmanna við byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Stjórnarandstaðan mótmælti harðlega en allt kom fyrir ekki. Ögmundur Jónasson, fulltrúi Vinstri-grænna í nefndinni, segir að þetta dragi til muna úr trúverðugleika fyrirtækisins. Hann spyr hver sé málstaður fyrirtækis sem þori ekki að sitja með gagnrýnendum sínum í sama herbergi og leyfa þeim að svara fyrir sig. „Að mínu mati hefur dregið mjög úr trúverðugleika Impregilo við þennan fund og skal ég játa að hann var ekki mjög mikill fyrir,“ segir Ögmundur.  Ögmundur segir að fulltrúi Impregilo hafi sagt á fundinum að það ætti ekki að koma mönnum á óvart að aðstæður væru erfiðar við Kárahnjúka. Síðasti ábundinn á þessu svæði hefði fyrirfarið sér fyrir eitt hundrað árum. Félagsmálanefndin hittir hins vegar ekki fulltrúa Alþýðusambandsins fyrr en í næstu viku. Að sögn Ögmundur sagði Þórarinn V. Þórarinsson, einn fulltrúa Impregilo, að fyrirtækið myndi fagna því að málin yrðu til lykta leitt fyrir dómstólum. Ögmundur kveðst því draga þá ályktun að Impregilo vilji það helst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×