Innlent

Fimmtungur með þunglyndiseinkenni

Einn af hverjum fimm unglingum í 9. og 10. bekk hefur alvarleg þunglyndiseinkenni. Þetta sýnir ný íslensk rannsókn. Skilnaðarbörn og börn sem búa í dreifbýli hafa meiri þunglyndiseinkenni en önnur börn. Þunglyndi barna er sterkur fyrirboði þunglyndis á fullorðinsárum og ástæða virðist til að hafa áhyggjur því fimmtungur barna í 9. og 10. bekk hefur alvarlegri þunglyndiseinkenni samkvæmt nýrri rannsókn. Voru stúlkur oftar með einkenni en drengir og líklegra er að börn fái þunglyndiseinkenni sem eiga minna menntaða foreldra eða búa í dreifbýli. Guðrún Kristjánsdóttir, prófessor í hjúkrunarfræði, segir það geta haft með ýmsa þætti að gera, t.d. einangrun, atvinnuleysi og möguleikarnir kannski ekki jafn miklir fyrir ungt fólk. Þá eru skilnaðarbörn með meiri þunglyndiseinkenni. Börn einstæðra mæðra eru með marktækt hærri tíðni af þunglyndiseinkennum en þau sem eru með hæsta tíðni eru börn sem búa við flókið fyrirkomulag heima fyrir. Þetta er í samræmi við það sem sést erlendis að sögn Guðrúnar. Guðrún leggur til að skimað verði fyrir þunglyndiseinkennum barna í skólaheilsugæslu til að finna þessi börn og hjálpa þeim. Það er einmitt það sem verður gert í Grafarvogi, stærsta barnahverfi landsins. Þar tók til starfa í dag sérstakur meðferðarhópur sálfræðinga, félagsráðgjafa og hjúkrunarfræðinga til að vinna fyrirbyggjandi starf á þessu sviði og nálgast börnin, m.a. í skólum, áður en mál þeirra þróast á verri veg. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra segist vona að hægt verði að koma upp sambærilegri starfsemi á öðrum heilsugæslustöðvum landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×