Innlent

Lög um fóstureyðingar brotin

Farið verður yfir verkferla á kvennadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri vegna konu sem gagnrýnir skort á eftirfylgni með líðan þeirra sem gangast undir fóstureyðingu. Hún fullyrðir ennfremur að lög um fóstureyðingar séu brotin hér á landi.  Í fréttum Stöðvar 2 í gær var rætt við unga konu sem upplifði mikla vanlíðan í kjölfar fóstureyðingar og gagnrýndi að enginn heilbrigðisstarfsmaður hefði rætt við hana um líðan hennar eftir aðgerðina. Konan sagði einnig að ekki hafi verið farið að lögum um að uppáskrift tveggja lækna, eða læknis og félagsráðgjafa, þurfi þegar sótt er um fóstureyðingu. Aðgerðin fór fram á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Bæði þar og á Landspítala er því vísað á bug að ekki sé farið að lögum. Þá fengust þær upplýsingar að alltaf sé öllum konum gerð grein fyrir því þegar þær leggjast inn að þær geti leitað til sjúkrahússins hvenær sem þær þurfa, hvenær sem er sólarhrings. Yfirlæknir á kvennadeild Fjórðungssjúkrahússins sagði í samtali við fréttastofu að honum þætti afar leiðinlegt að konu líði svo illa eftir svona aðgerð. Hann gæti hins vegar alls ekki rætt þetta einstaka mál vegna trúnaðar. Að sjálfsögðu verði farið yfir verkferla á sjúkrahúsinu til að sjá hvort þá megi bæta á einhvern hátt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×