Innlent

Nær til átta milljón heimila

Tveir íslenskir athafnamenn hafa tryggt sér dreifingarrétt á nýrri sjónvarpsstöð sem áformað er að muni ná til átta milljóna heimila í Skandinavíu fyrir árslok 2006. Áætlaður heildarkostnaður við verkefnið er 750 milljónir króna á fimm árum.  Það eru þeir Sigurjón Sighvatsson og Björn Steinbach Kristjánsson sem, ásamt íslenskum fjárfestum, hafa tryggt dreifingu á sjónvarpsstöðinni Big TV sem áætlað er að muni ná til átta milljón heimila innan tveggja ára. Stöðin mun sérhæfa sig í framleiðslu sjónvarpsefnis fyrir fólk á aldrinum 12-25 ára. Stöðin verður sú fyrsta í Evrópu sem senda mun út samtímis í sjónvarpi, á Netinu og í útvarpi. Hugmyndin er sú að þeir sem horfi á stöðina geti hvenær sem er stillt inn og notið þess sem í boði er, hvort sem er í sjónvarpstækjum sínum, útvarpstækjum eða tölvum. Stöðin mun fyrst um sinn senda út í Finnlandi en síðan á að færa út kvíarnar til Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs. Þrátt fyrir umfang stöðvarinnar er aðeins ráðgert að um fimmtíu manns muni starfa fyrir Big TV í öllum löndunum fjórum. Ástæðan er sú að stöðvarnar verða fullkomlega sjálfvirkar í alla staði og allt efni verður hýst á tölvustýrðum útsendingaþjónum. Í raun er hægt að hýsa allt efnið og senda stöðina út frá Íslandi og er talið líklegt að hluti starfseminnar fari fram hér á landi. Stefnt er að því að setja stöðina upp og dreifa henni í austur- og suðausturhluta Evrópu þegar fram líða stundir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×