Innlent

Sjúkrarúmum fjölgað vegna flensu

Starfsfólk Landspítalans vinnur nú hörðum höndum að því að fylla hvern krók og kima í húsnæði spítalans af sjúkrarúmum til að geta hýst þá sjúklinga sem streyma inn vegna flensu og annarra pesta. Óvenju mikið álag hefur verið síðustu dagana og í gær þurfti að leggja 50 sjúklinga inn á bráðadeildir umfram skráð sjúkrarúm. Þetta ástand hefur líka skapað aukið álag á lækna og hefur þurft að fresta skurðaðgerðum sem ekki eru bráðaðkallandi vegna þessa. Gæsludeild A-2 í Fossvogi hefur verið stækkuð og herbergi sem eru til annarra nota breytt í sjúkrastofur. Þá hefur dagdeild við Hringbraut verið breytt í legudeild og er búist við að þetta ástand standi fram yfir helgi en þá verður ástandið endurmetið. Í tilkynningu frá Önnu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar, og Vilhelmínu Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra lækninga, segir að starfsmenn spítalans hafi lagst á eitt um að bregðast við því ástandi sem skapast hefur með mikilli samstöðu og samvinnu. Eins og fréttastofan hefur áður greint frá virðist flensan að vera að ná hámarki og víða eru miklar fjarvistir frá skólum og leikskólum vegna hennar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×