Innlent

Klór áfram í Kópavogi

Hansína Björgvinsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir umhugsunarvert að Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hafi talið að búið væri að vinna úr klórgasbirgðum Mjallar-Friggjar. Eigandi fyrirtækisins greindi frá því á fundi bæjarráðs Kópavogs í gær að nægilegt klórgas væri til fyrir framleiðslu klórs næstu tvo til þrjá mánuðina. Umhverfisráðuneytið hefur óskað eftir því að Umhverfisstofnun skoði málið vegna misvísandi upplýsinga sem borist hafi frá heilbrigðiseftirlitinu. Davíð Egilsson, forstjóri Umhverfisstofnunar, segir stofnunina hafa vitað af málinu og kynni sér málavöxtu þess. Hansína segir upplýsingarnar um áframhaldandi framleiðslu klórs ekki breyta ákvörðun bæjaryfirvalda um að fyrirtækið fái að klára klórgasbirgðarnar. Of áhættusamt sé að flytja þær burt af svæðinu. Á fundi bæjarráðs felldi meirihlutinn tillögu samfylkingarmannsins Flosa Eiríkssonar um að framleiðslan yrði stöðvuð og leitað yrði annarrar lóðar og öruggari fyrir fyrirtækið. Hansína segir meirihlutann ekki hafa viljað vekja falskar vonir eiganda Mjallar-Friggjar. Fyrirtækið geti haldið annarri framleiðslu en klórs áfram á lóðinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×