Sport

Morientes skrifaði undir í dag

Nú rétt fyrir fimm skrifaði Fernando Morientes undir þriggja og hálfs árs samning við enska stórliðið Liverpool. Morientes flaug í gegnum læknisskoðun í morgun og skrifaði í kjölfarið undir samninginn. Ian Cotton, talsmaður Liverpool, sagði í dag: "Fernando Morientes er nú formlega orðinn leikmaður Liverpool og mun hann verða tilkynntur á blaðamannafundi á morgun". Rafa Benitez, stjóri Liverpool, sagði við þetta tilefni að hann gæti jafnvel notað Morientes í stórleik helgarinnar er Manchester United kemur í heimsókn á Anfield. "Hann er okkur mikilvægur," sagði Benitez. "Hann er frábær í loftinu, klárar færin sín mjög vel og er jafnvígur á bæða fætur. Við þurftum sóknarmann með reynslu, fyrir stuðningsmennina, fyrir liðið og fyrir leikmennina. Hann er kannski ekki sá fljótasti, en hann getur spilað með Baros og þeir gætu myndað gott samstarf því annar er góður í loftinu á meðan hinn er fljótur. Einnig hefur hann hugarfarið til að fara beint inn í leik eins og á laugardaginn." Rafa Benitez er því kominn með all svakalegt framherjapar í þeim Morientes og Milan Baros, auk þess sem þeir Florent Sinama Pongolle og Neil Mellor eru tilbúnir að stíga inn ef vantar. Þá ætti Djibril Cissé að vera tilbúinn fyrir næsta tímabil og má því segja að framlínan hjá þeim rauðu sé orðin vel mönnuð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×