Innlent

Engin röskun á framkvæmdum

Engin röskun verður á framkvæmdum við álverið í Reyðarfirði þrátt fyrir úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að Fjarðaál verði að gangast undir umhverfismat. Fyrirtækið hefur áfrýjað úrskurðinum til Hæstaréttar og þangað til hann fellir úrskurð hefur það sömu réttarstöðu og fyrir úrskurð héraðsdóms. Forsendur dómsins voru meðal annars þær að álverið sem hafði áður gengist undir umhverfismat var með annan mengunarbúnað og því þyrfti Fjarðaál að gangast undir annað. Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Fjarðaráls, segir að þessi niðurstaða komi sér á óvart. "Í grundvallaratriðum er um að ræða minna álver sem er ekki með rafskautaverksmiðju, en það er einn mest mengandi þáttur í rekstri álvera. Við erum með þurrhreinsunarbúnað og þau markmið sem við og starfsleyfið setur okkur eru það ströng að heildaráhrifin af verksmiðjunni eiga að vera minni eða þau sömu og ef um vothreinsunarbúnað væri að ræða." "Þetta er jákvæður úrskurður og við eigum mikið að þakka þrautseigju og elju Hjörleifs Guttormssonar að fara með þetta mál fyrir dómstóla," segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands. Árni hefur fyrirvara á að Hæstiréttur á eftir að fjalla um málið en segir þó dóminn vera viðurkenningu á málstað náttúrverndarsinna og staðfesta að umhverfisráðherra hafi farið offari á sínum tíma við afgreiðslu málsins. Siv Friðleifsdóttir var umhverfisráðherra í apríl 2003 og felldi þann úrskurð að álverið í Reyðarfirði þyrfti ekki að gangast undir annað umhverfismat þar sem slíkt mat hefði áður farið fram vegna álvers Norsk-Hydro sem aldrei reis. Hún telur ekki að úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur sé áfellisdómur yfir ákvörðun hennar og er hissa á niðurstöðunni. "Það hafði áður farið fram umfangsmikið umhverfismat fyrir mun stærra álver og þrátt fyrir öðruvísi mengunarbúnað nýja álversins töldu Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun ekki þörf á nýju mati og ég var sammála því."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×