Innlent

Hundruð manna á utangarðsskrá

Talið er að starfsmenn Impregilo og annarra verktaka á Kárahnjúkum séu um 1.000 talsins, þar af er áætlað að erlendir starfsmenn séu um eða yfir 800. Þetta er þó ekki alveg vitað og þykir alvarlegt, ekki síst vegna almannavarna ef ógnir steðja að íbúum á svæðinu. Gunnþórunn Ingólfsdóttir, sveitarstjóri Fljótsdalshrepps, segir að um 600 erlendir starfsmenn séu skráðir hér á landi og talið sé að 200-300 vanti á skrá en erfitt sé að áætla þetta því að hin mikla starfsmannavelta geti skekkt myndina. Eiríkur Björn Björgvinsson, sveitarstjóri Fljótsdalshéraðs, telur hinsvegar að tæplega 450 útlendingar séu á utangarðsskrá. Verið er að vinna í því að fá upplýsingar um réttan fjölda erlendra starfsmanna og þá fyrst og fremst frá Impregilo. Þetta er gert í gegnum Útlendingastofnun, Hagstofuna og Vinnumálastofnun en starfsmenn þessara stofnana eru að koma sér upp vinnulagi fyrir skráningu. Gunnþórunn telur þó að enn vinni útlendingar á Kárahnjúkum án þess að vitað sé af þeim. "Mér sýnist að erlent vinnuafl komi eins og aðrir útlendingar til landsins og starfi hér áður en þessi ferill fer í gang. En sjálfsagt eru allir að reyna að gera sitt besta til að koma upp vinnulagi til að koma í veg fyrir þetta," segir hún. Það að ekki séu til nákvæmar upplýsingar um íbúafjölda á Kárahnjúkum þykir slæmt með tilliti til útsvarstekna og ekki síður alvarlegt með tilliti til almannavarna á svæðinu. "Þetta skiptir máli fyrir sveitarfélagið," segir Eiríkur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×