Innlent

Impregilo ætlar að sanna sitt mál

Árni Magnússon félagsmálaráðherra átti í gær fund með fulltrúum ítalska stórfyrirtækisins Impregilo til að kynna sér allar hliðar málsins en farið var yfir gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar frá sjónarhóli Impregilo. Ítalarnir tala um rangar ásakanir verkalýðshreyfingarinnar. Gianni Porta, verkefnisstjóri Impregilo, segir að fundurinn með ráðherra hafi verið mjög jákvæður. "Við gátum gefið útskýringar á ásökunum í fjölmiðlum og erum vissir um að málið skýrist, að minnsta kosti frá okkar hlið séð. Það er ekkert satt í þessum ásökunum og við erum tilbúnir að sanna það fyrir hverjum sem er, hvar sem er og hvenær sem er," segir hann. Sannanir Impregilo verða lagðar fyrir ráðherra og aðra þá sem það vilja. Porta sagði að blaðamaður fengi að sjá þær ef þær yrðu gerðar opinberar hjá yfirvöldum, annars ekki. Stjórnvöld séu samningsaðili Impregilo og fyrirtækið fari eftir íslenskum lögum og reglum. "Samningar eru fyrir hendi við verkalýðshreyfinguna en því miður er það ekki virt. Impregilo hefur þegar skrifað undir alþjóðlegt samkomulag en því miður er mikið af röngum upplýsingum í umræðunni," sagði hann. "Tilgangurinn er að átta sig á því um hvað málið snýst. Við höfum í höndunum umfangsmikla greinargerð ASÍ og mér finnst mikilvægt að horfa til allra hluta," sagði Árni Magnússon félagsmálaráðherra eftir fundinn í gær. "Forsvarsmenn Impregilo fóru yfir málið. Eins og þeir hafa rakið er veruleg starfsmannavelta á Kárahnjúkum, sem þeir rekja ekki síst til aðstæðna á staðnum. Þá skortir vinnuafl. Auglýst hefur verið eftir því og niðurstöður þeirrar leitar auka ekki bjartsýni," segir Árni, sem mælir með því að verkalýðshreyfingin fari með málið fyrir félagsdóm ef deiluaðilar ná ekki saman. Ráðherra hitti einnig forystumenn Samtaka atvinnulífsins í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×