Innlent

Segir niðurstöðu koma mjög á óvart

Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, segir niðurstöðu héraðsdóms vegna álvers Alcoa í Reyðarfirði koma verulega á óvart. Hún vonar að kærufletir vegna álversins fari að verða uppurnir. Samkvæmt niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá í gær verður álver Alcoa í Reyðarfirði að fara í umhverfismat og getur ekki stuðst við fyrra mat vegna álsvers sem Norsk Hydro hugðist reisa á svæðinu. Héraðsdómur ómerkti því úrskurð umhverfisráðherra um ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrra umhverfismatið gilti einnig fyrir Alcoa. Það var Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður, sem stefndi Alcoa, Reyðaráli og íslenska ríkinu vegna fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði og krafðist meðal annars ómerkingar á úrskurði ráðherra. Héraðsdómur féllst á kröfuna þar sem ljóst þótti að mengun myndi margfaldast miðað við fyrri áætlanir. Dómurinn benti á að álver væru, lögum samkvæmt, fortakslaust matsskyld og því væri úrskurður umhverfisráðherra andstæður lögum. Siv Friðleifsdóttir var umhverfsiráðherra þegar úrskurðað var um ákvörðun Skipulagsstofnunar vegna álvers Alcoa. Hún segir dóminn koma sér verulega á óvart en honum verði áfrýjað til Hæstaréttar og ómögulegt sé að segja hvernig málið endi. Hún segir að fram hafi farið umfangsmikið umhverfismat á mun stærra álveri og rafskautaverksmiðju og þegar ákveðið hafi verið að minnka álverið verulega hafi Skipulagsstofnun komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri þörf á nýju mati. Stofnunin hafi byggt það á áliti frá Umhverfisstofnun og Siv segist hafa verið sammála báðum stofnunum og því úrskurðað á fyrrgreindan veg. Siv segir að bæði Hjörlefiur Guttormsson og fleiri aðilar hafi oft kært álverið og Kárahnjúkavirkjun og hafi verið miklir andstæðingar þessara verkefna. Vonandi fari allir kærufletir að verða uppurnir. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×