Innlent

Reyðarál í umhverfismat

Umhverfisráðuneytið hefur þegar ákveðið að áfrýja dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í gær, um að álver Reyðaráls þurfi að sæta umhverfismati. Með dómnum var úrskurði umhverfisráðherra um að álver Reyðaráls, fyrir allt að 322 þúsund tonna ársframleiðslu þyrfti ekki að sæta umhverfismati dæmdur ómerkur, að kröfu Hjörleifs Guttormssonar, fyrrverandi alþingismanns. Dómurinn vísaði frá dómi þremur kröfum Hjörleifs, af fjórum. Þar á meðal kröfu um ómerkingu útgáfu starfsleyfis fyrir álver Reyðaráls ehf., þar sem Umhverfisstofnun, sem gaf út starfsleyfið var ekki stefnt til varnar. Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri í Umhverfisráðuneytinu, segir ráðuneytið búið að ákveða að áfrýja dómnum. "Þessi dómur kemur á óvart og við teljum hann rangan. Það var mat Skipulagsstofnunar á sínum tíma að ekki þyrfti nýtt umhverfismat. Það byggði hún á sérfræðimati um að þessi breyting væri það mikil að það útheimti nýtt mat." Magnús segir jafnframt að hann geti ekki séð að dómurinn hafi fellt úr gildi starfsleyfi Reyðaráls, líkt og Hjörleifur Guttormsson heldur fram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×