Innlent

Fyrra mat gildir ekki fyrir Alcoa

lver Alcoa í Reyðarfirði verður að fara í nýtt umhverfismat. Héraðsdómur Reykjavíkur ómerkti í dag úrskurð umhverfisráðherra um ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrra mat á álveri, sem Norsk Hydro hugðist reisa, gilti einnig fyrir Alcoa. Hjörleifur Guttormsson, sem stefndi ríkinu og Alcoa, fagnar niðurstöðunni. Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi alþingismaður, sem stefndi Alcoa, Reyðaráli og íslenska ríkinu vegna fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði krafðist þess meðal annars að héraðsdómur ómerkti úrskurð umhverfisráðherra frá því árið 2003, sem staðfesti ákvörðun Skipulagsstofnunar um að 322 þúsund tonna álver þyrfti ekki að fara í umhverfismat. Hjörleifur taldi að Skipulagsstofnun bæri að meta áhrif álvers Alcoa í stað þess að byggja á fyrra mati á álveri, sem Norsk Hydro hugðist reisa á svæðinu, þar sem Alcoa gerði ráð fyrir lakari mengunarvörnum en álver Norsk Hydro. Héraðsdómur taldi að samkvæmt gögnum Alcoa myndi útblástur á brennisteinsdíoxíði margfaldast miðað við það sem áður hefði verið gert ráð fyrir. Dómurinn benti á að álver væru, lögum samkvæmt, fortakslaust matsskyld og hlyti veruleg breyting á aðferðum og hreinsunarbúnaði álversins að geta haft umtalsverð áhrif á umhverfið. Var það álit dómara að úrskurður umhverfisráðherra, sem staðfesti ákvörðun Skipulagsstofnunar, væri andstæður lögum og var því fallist á kröfu Hjörleifs. Hjörleifur segir að sér sýnist dómurinn nokkur tíðindi og hann sjái ekki betur en að álverið í Reyðarfirði þurfi að fara í sjálfstætt umhverfismat. Það hafi sannarlega verið ómaksins virði að fara með málið fyrir dóm, fyrir utan það að frammi liggi yfir 100 málsskjöl sem séu góð og gild fyrir eftirleikinn og söguna.  Héraðsdómur vísaði frá kröfu Hjörleifs um að ómerkja ákvörðun umhverfisráðherra um útgáfu starfsleyfis fyrir álver í Reyðarfirði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×