Sport

Arsenal og Newcastle skriðu áfram

Arsenal og Newcastle tryggðu sér í gær sæti í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar í fótbolta. Ekki var búist við því fyrirfram að liðin tvö myndu lenda í verulegum vandræðum með andstæðinga sína en annað kom á daginn. Bæði lið lentu í basli en höfðu að lokum sigur. Newcastle sótti utandeildarliðið Yeading heim á Loftus Road, heimavöll Queens Park Rangers og lenti í vandræðum. Fyrir leikinn hafði stærsta dagblað Bretlands, The Sun, lofað markverði Yeading, Del Preddie, nýjum Ford Focus ef honum tækist að halda markinu hreinu í leiknum. Preddie stóð vaktina vel í markalausum fyrri hálfleik og segja má að Yeding hafi fengið besta færi hálfleiksins þegar Stephen Harper, markvörður Newcastle, varði glæsilega aukaspyrnu frá David Clarke. Newcastle náði hins vegar að brjóta ísinn þegar sex mínútur voru liðnar af síðari hálfleik en þá skoraði Lee Bowyer eftir fallegan undirbúning frá Craig Bellamy. Shola Ameobi bætti síðan öðru marki við fyrir Newcastle tíu mínútum síðar en leikmenn Yeading gáfu ekki tommu eftir og komu í veg fyrir að leikmenn Newcastle skoruðu fleiri mörk. Johnson Hippolyte, knattspyrnustjóri Yeading, var í skýjunum eftir leikinn og lýst sínum mönnum sem hetjum. "Ég er mjög stoltur af strákunum sem eru allir hetjur. Margir af þessum leikmönnum hafa orðið fyrir vonbrigðum á ferlinum en ég vissi að þeir hefðu þann karkater sem þeir sýndu í dag. Við vissum að við vorum áhugamenn að spila við atvinnumenn en strákarnir stóðu sig frábærlega," sagði Hippolyte. Arsenal lenti einnig í vandræðum gegn 1. deildarliði Stoke á Highbury. Varnarmaðurinn Wayne Thomas Stoke yfir eftir hálftíma leik en Arsenal hristi af sér slyðruorðið í síðari hálfleik og mörk frá Jose Antonio Reyes og Robin van Persie tryggðu þeim sigurinn. Leikmenn Arsenal voru þó stálheppnir því Gael Clichy, varnarmaður Arsenal, bjargaði á marklínu og Ade Akinbiyi, sóknarmaður Stoke, átti þrumufleyg í þverslá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×