Innlent

Yfirheyra fjölda grunaðra manna

Jórdanskir lögreglumenn hafa yfirheyrt fjölda Araba, þeirra á meðal nokkra Íraka, vegna hryðjuverkanna í Amman, höfuðborg Jórdaníu, í fyrrakvöld. Íslendingur var væntanlegur á eitt hótelanna sem árás var gerð á skömmu eftir sprengingarnar.

Húsleitir voru gerðar í húsum víða í hverfum efnaminni íbúa Amman, höfuðborgar Jórdaníu, í gær þar sem margir íraskir verkamenn búa. Fjöldi manna hefur verið tekinn til yfirheyrslu. Að sögn Awni Yarfas innanríkisráðherra eru þeir af margvíslegu þjóðerni og þeirra á meðal nokkrir Írakar. Abdullah konungur hét því að hafa upp á þeim sem stóðu að baki árásunum hvaðan sem þyrfti að draga þá úr felum. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kemur til Jórdaníu í dag.

Stefanía Reinhardsdóttir Khalifeh, aðalræðismaður Íslands í Jórdaníu býr í Amman. Hún segir borgarbúa reiða í garð árásarmanna, sérstaklega vegna þess að margir þeirra sem létust voru í brúðkaupsveislu á einu hótelanna. Þá velti heimamenn því fyrir sér að hverjum árásirnar beindust. Í yfirlýsingu sem talin er frá al-Kaída segir að ráðist hafi verið á hótelin vegna þess að bandarískir njósnarar og gyðingar hefðu gist á þeim. Flestir þeirra sem létust voru hins vegar óbreyttir jórdanskir borgarar og segir Stefanía að fólk eigi því erfitt með að átta sig á hvað vakti fyrir árásarmönnunum.

Einn Íslendingur átti að gista á Grand Hyatt hótelinu og var væntanlegur þangað skömmu eftir að árásirnar voru gerðar. Hann er í flugáhöfn flugvélar Cargolux sem átti að gista á hótelinu en þegar árásirnar voru gerðar var ákveðið að tæma flugvélina og halda á brott. Þá hafa hópar Íslendinga gist á Days Inn hótelinu og Skandinavíufélagið hefur haldið starfsemi sína á Radisson SAS hótelinu. Þar stendur til að halda jólakynningu í næstu viku og hefur verið ákveðið að halda sig við þá áætlun þrátt fyrir árásirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×