Innlent

Foreldrar koma að rekstri Kópavogsskóla

Ármann Kr. Ólafsson við Kópavogsskóla. Forseti bæjarstjórnar segir að foreldraráðinu verði heimilt að fá einkaaðila til að styrkja skólastarfið.
Ármann Kr. Ólafsson við Kópavogsskóla. Forseti bæjarstjórnar segir að foreldraráðinu verði heimilt að fá einkaaðila til að styrkja skólastarfið.

"Þetta þýðir að við erum að færa mun meira vald til foreldra en nokkurn tíma áður og vonumst með því til að auka skilvirkni og fjölbreytileika innan hans," segir Ármann Kr. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Kópavogs.

Samþykkt voru á bæjarstjórnar­fundi í fyrrakvöld drög að samningi við Kópavogsskóla um stóraukin áhrif foreldraráðs skólans á stjórn hans til næstu tveggja ára í tilraunaskyni.

Ármann segir að samningur þessi byggist á þrennu. "Í fyrsta lagi að auka sjálfstæði skóla en það er nokkuð sem margir hafa talað um en aldrei raunverulega komist í framkvæmd með almennilegum hætti. Með þessum hætti er tryggt að svo verður. Í öðru lagi auka valddreifingu innan skólans og síðast en ekki síst þýðir þetta aukið íbúalýðræði því öllum foreldraráðinu gefst kostur á að vera með puttana í öllum ­helstu ákvarðanatökum innan veggja skólans."

Tilraunin gengur út á að foreldraráð sem kosið verði á opnum fundi fái víðtæk völd en verði ekki aðeins umsagnaraðili eins og venja er meðal slíkra ráða. Foreldraráð Kópavogsskóla verður þá beinn þátttakandi í að leggja línurnar ásamt forráðamönnum skólans og mun hafa áhrif meðal annars á ráðstöfunarfé hans og taka beinan þátt í ráðningu nýs skólastjóra þegar og ef til þess kemur. Enn fremur verður foreldraráðinu heimilt að fá einkaaðila til að styrkja skólastarfið og verður þannig heimilt að stofna sérstakan sjóð þess vegna. Að síðustu munu foreldrar sem í ráðinu verða fá sérstaka þóknun fyrir störf sín.

Ármann segir að vilji hafi verið fyrir því að ganga lengra með að auka sjálfstæði skóla í þeirri von að enn betri nýting fáist á það fjármagn sem skólanum er ætlað. "Með þessum hætti fer fé frekar í þau verkefni sem eru foreldrunum þóknanleg og veitir um leið aðhald um nýtingu fjármunanna."

Samningurinn mun formlega taka gildi frá og með næstu áramótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×