Erlent

Enn á lífi eftir 36 klukkustundir

Mun færri virðast hafa farist í jarðskjálftanum í Bengalflóa á sunnudaginn en í upphafi var óttast. Slökkviliðsmenn björguðu í gær manni úr húsarústum, einum og hálfum sólarhring eftir að skjálftinn reið yfir. Hjálpargögn eru farin að berast en þó er erfitt um aðdrætti. Hjálparstarf er hafið af krafti á Nias-eyju, sem verst varð úti í jarðskjálftanum á sunnudaginn. Fyrstu erlendu hjálparsamtökin komu á svæðið í gær með vistir og lyf. Aðstæður eru erfiðar því veður hefur verið slæmt og eini flugvöllur eyjarinnar skemmdist mikið í jarðhræringunum. Sameinuðu þjóðirnar og önnur samtök hyggjast flytja birgðir sem komið var til hamfarasvæða á Súmötru til Nias-eyju. Í gær björguðu franskir slökkviliðsmenn manni á þrítugsaldri úr húsarústum en þar hafði hann dúsað í hálfan annan sólarhring. Sjónvarpsviðgerðamaðurinn Jansen Silalahi var með meðvitund þegar braki var lyft ofan af honum með bíltjakki. Hann brosti og veifaði Frökkunum en þeir höfðu áður verið við störf í Aceh-héraði á Súmötru á vegum samtakanna Slökkviliðsmenn án landamæra. Háttsettur erindreki hjá Sameinuðu þjóðunum sagði gögn benda til að 518 manns hefðu týnt lífi, þar af 500 á Nias-eyju. Indónesísk stjórnvöld telja hins vegar að í það minnsta þúsund manns hafi farist. Óttast hafði verið um íbúa Banyak-eyjar, sem er skammt frá Nias-eyju, en engar fréttir bárust þaðan lengi vel. Indónesískur embættismaður sagðist hins vegar hafa heimsótt eyjuna í gær og þar hefði enginn beðið bana. Á hinn bóginn þyrfti að koma matvælum til eyjarskeggja hið fyrsta því talsvert tjón hefði orðið í umbrotunum. Nokkuð hefur verið um gripdeildir í Gunung Sitoli, höfuðstað Nias-eyju, síðustu daga. Svo virðist sem neyðin reki fólkið til slíkra verka því matur hefur verið af skornum skammti. Rafmagns- og vatnsskortur hefur hamlað starfsemi sjúkrahúsa og er óttast að farsóttir geti breiðst út af þeim sökum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×