Innlent

Hafísinn færist nær landi

Hafísinn fyrir norðanverðu landinu færist nær og er nú m.a. kominn inn í Skagafjörð og Húnaflóa. Íbúar við ströndina taka honum ekki fagnandi. Að sögn Þórs Jakobssonar veðurfræðings hefur ísinn færst suður fyrir Grímsey sem bendi til þess að hann sé ekki mikill þar fyrir norðan. Þór segir hafís á siglingaleið alveg úti fyrir Norður- og Norðausturlandi og inni í stöku fjörðum. Hann er til dæmis kominn inn í Skagafjörð, Húnaflóa og vestanverðan Siglufjörð. Þá fréttist líka af honum í gær á Bakkafirði og Vopnafirði. Siglingaleiðin kringum landið er þó opin alls staðar en brýnt er fyrir sjófarendur að fara með gát, ekki síst að nóttu til. Íbúar við norðurströndina eru ekki ánægðir með þennan sjaldséða gest. Valgeir Benediktsson er fæddur og uppalinn á Ströndum en hefur búið í Árnesi í Trékyllisvík í 23 ár. Hann segir að hafíshrafl sé í fjörunum við Árnes og þá sé ísspöng úti fyrir í víkinni. Valgeir segir sjaldgæft að sjá hafís í Trékyllisvík þótt hún standi fyrir opnu Norður-Atlantshafinu. Vörur koma með flugi svo ekki þarf að hafa áhyggjur af vöruskorti í kaupfélaginu í Norðurfirði. Grímseyingar hafa áhyggjur af ísnum þar sem hann kemur í veg fyrir að þeir geti sótt sjó. Aðspurður hvort ísinn hafi einhver áhrif á daglegt líf og störf á Ströndum segir Valgeir svo ekki vera því engir bátar rói þaðan á þessum tíma. Spurður hvort hægt sé að hafa gaman af ísnum segir Valgeir að þeim fullorðnu finnist þetta ekki skemmtilegt en krakkarnir hafi gaman af ísnum. Fólk vilji losna við hann sem fyrst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×