Innlent

Reglur breytast óháð sameiningu

"Einhverjir munu missa spón úr aski sínum en aðrir munu fá meira en þeir hafa hingað til fengið," segir Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs sjómanna. Kosið verður um sameiningu hans við lífeyrissjóðinn Framsýn á miðvikudaginn kemur en bent hefur verið á að sjómenn muni bera skarðan hlut verði sameiningin að veruleika. Árni segist skilja áhyggjur þeirra en bendir á að réttindareglur sjóðsins séu að breytast óháð þessari fyrirhuguðu sameiningu. "Þannig að engu breytir hvort hún gengur í gegn eður ei að greiðslur til sjóðsfélaga munu taka breytingum á næstunni. Við erum þarna að fylgja í fótspor annarra lífeyrissjóða sem eru að tryggja stöðu sína og bregðast við breyttum aðstæðum með sameiningu sem þýðir að sjóðirnir eflast til langframa." Árni bendir á að starfsumhverfi lífeyrissjóða hafi gerbreyst hin síðari ár með auknum lífslíkum fólks og við því verði að bregðast áður en í óefni kemur. Sameiningin, ef af henni verður, er hluti af því ferli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×