Innlent

Fyrsta skip af fjórum afhent

Svartfoss er nýjasta kaupskip íslenska flotans. Skipið er afar sérhæft og fyrsta nýsmíðin af þessu tagi í heiminum í tæpa tvo áratugi.

Stjórnarformaður Avion Group, móðurfélags Eimskips, segir félagið vera hið fremsta á sínu sviði á Norður-Atlantshafi. Haukur Holm var við afhendingu skipsins í Álasundi í Noregi.

Næsta skip verður afhent á næsta ári, en þau verða öll fjögur komin í notkun árið 2007. Afkastageta þeirra er mun meiri en hjá eldri sambærilegum skipum og mun skemmri tíma tekur að ferma þau og afferma, en eldri skip. Að sögn forstjóra Eimskips er mikil þörf fyrir svona skip.

Forsvarsmenn Eimskipa voru ekki bara að taka við nýju skipi í gærkvöldi, heldur var líka gengið frá kaupum á fyrirtækinu CTG í Noregi. Það er rótgróið og sérhæfir sig í flutningum á frystivörum og er með fimm frystigeymslur norður eftir allri strönd Noregs. Eimskip átti liðlega helming í fyrirtækinu, en á það nú að öllu leyti og er starfsemin í Noregi rekin undir nafninu Eimski-CTG. Fyrri eigendur CTG starfa áfram hjá félaginu og verða með þessum viðskiptum hluthafar í Avion Group. Nýju skipin fjögur eru hrein viðbót við flota Eimskipa og segir stjórnarformaður móðurfélagsins að Eimskip sé komið í fremstu röð í flutningum á Norður-Atlantshafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×