Innlent

Ákvörðun Íslendinga vonbrigði

Linda J. Hartley, talsmaður bandaríska sendiráðsins, segir að bandarísk stjórnvöld hafi orðið fyrir vonbrigðum með þá ákvörðun Íslendinga að bjóða Fischer ríkisborgararétt og komið því á framfæri við stjórnvöld. Þau vilji fá Fischer til Bandaríkjanna. Fischer sé enn bandarískur ríkisborgari en ferðir hans verði ekki heftar. Bandarísk stjórnvöld sendi frá sér yfirlýsingu þegar Fischer sé kominn hingað til lands. Sæmundur Pálsson, vinur skákmeistarans Bobby Fischers, fer í dag eða á morgun til Japans og vonast til að koma með Fischer hingað til lands á morgun eða um helgina. Miyoko Watai, unnusta Fischers og forseti japanska skáksambandsins, kemur með honum hingað til lands og ætlar að dveljast með honum hér um óákveðinn tíma. Watai segir að þau séu búin að ganga frá ferðatilhöguninni en Fischer hafi áhyggjur af því að Bandaríkjamenn reyni að hefta ferð hans og því sé ferðaskipulaginu haldið leyndu. Hún segir að þau hafi talað um að giftast, til dæmis hér á landi, en vill ekki gefa neitt upp um það hvort Íslendingar eigi von á brúðkaupi. Hún vill heldur ekkert segja um það hvort hún muni búa með honum hér á landi til frambúðar. Sæmundur fer í dag eða á morgun til Japans ásamt kvikmyndagerðarmönnunum Friðriki Guðmundssyni og Kristni Hrafnssyni og Páli Magnússyni, fréttastjóra á Stöð 2. "Það hefði verið best ef ég hefði getað hitt Fischer í Danmörku en hann vildi að ég kæmi alla leið. Ég vona að ég komist með hann til landsins fyrir helgina. Framtíðin verður svo að skera úr um framhaldið," segir Sæmundur. Fischer og unnusta hans munu búa á hóteli til að byrja með og segir Sæmundur að Fischer sé samþykkur því en ekki hafi verið gengið frá gistingunni að öðru leyti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×