Innlent

Jepparnir komnir niður á láglendi

Björgunarsveitarmenn eru búnir að koma tveimur jeppum, sem þrjú ungmenni festu uppi á hálendi í gær og leit var gerð að, niður á láglendi en ungmennin fundust heil á húfi í gærkvöldi. Það var áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar sem fann ungmennin þrjú um klukkan hálf átta í gærkvöldi sem u.þ.b. hundrað björgunarsveitarmenn höfðu leitað að síðan um hádegi í gær. Þau voru þá í öðrum jeppa sem fólkið hafði lagt af stað í frá Dalvík um hádegi á sunnudag og ætlaði til Keflavíkur. Hinn jeppinn fannst mannlaus rétt vestur af Kerlingafjöllum um sjöleytið í gærkvöldi og sá með fólkinu í rúmum hálftíma síðar, suðaustur af Bláfelli. Þyrlan flutti fólkið til Reykjavíkur og amaði ekkert að því við komuna. Fólkið var rammvilt og komið nokkuð út af Kjalveginum þegar bílarnir festust. Ekkert farsímasamband er á þessum slóðum og þau voru aðeins með eina lélega talstöð sem ekki virkaði. Þá kom fram að þau höfðu lítið sem ekkert velt fyrir sér veðurspá fyrir ferðina og hafa ekki mikla reynslu af fjallaferðum. Þykir björgunarmönnum, sem lögðu á sig mikið erfiði við leitina, heldur hart að svo illa undirbúið fólk sé að leggja á hálendið og skapa um sig óvissu og fyrirhöfn, en gleðjast þó yfir að ekkert hafi komið fyrir fólkið
MYND/Landhelgisgæslan
MYND/Landhelgisgæslan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×