Erlent

Vill N-Kóreu að samningaborðinu

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hvetur stjórnvöld í Norður-Kóreu til þess að hefja aftur viðræður um kjarnorkuvopnaáætlun landsins, en Norður-Kóreumenn lýstu því yfir í síðasta mánuði að þeir byggju yfir kjarnorkuvopnum um leið og þeir drógu sig út úr viðræðum sex ríkja um áætlunina. Stjórnvöld í Pyongyang hafa neitað að setjast aftur að samningaborðinu fyrr en Rice biðst afsökunar á því að hafa kallað Norður-Kóreu útvörð einræðis. Viðræður um kjarnorkuvopnamál á Kóreuskaganum hafa staðið yfir með hléum í hátt í þrjú ár en hafa enn sem komið er engu skilað, en Bandaríkjamenn fara fram á að Norður-Kóreumenn eyði öllum kjarnorkuvopnum gegn vilyrði um efnahagsaðstoð. Stjórnvöld í Asíuríkinu segja hins vegar að þau þurfi vopnin til að geta varið sig. Þá lýsti Rice því yfir við sama tilefni að Bandaríkjamenn hefðu ekki í hyggju að ráðast á Norður-Kóreu en lagði áherslu á það að öll ríkin, Rússland, Kína, Japan, Suður-Kórea og Bandaríkin, yrðu að þrýsta á norðurkóresk stjórnvöld að ræða málin. Talið er að kínversk stjórnvöld geti gegnt lykilhlutverki í viðræðunum en samband þeirra við yfirvöld í Pyongyang er einna best af ríkjunum fimm.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×