Innlent

Enginn afsláttur af kjarasamningum

Árni Bjarnason forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands segir sambandið allt af vilja gert til að greiða fyrir nýsmíði skipa, svo framarlega sem kröfur útgerðarmanna vegna nýsmíða gangi ekki gegn nýgerðum kjarasamningum. Á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum um helgina kom fram að fyrirtækið hefur hug á að láta smíða tvö ný skip. Forsvarsmenn útgerðarinnar telja hins vegar að breytingar á kjarasamningum séu forsendur smíðanna. Viðræður hafa farið fram milli Vinnslustöðvarmanna og Farmanna- og fiskimannasambandsins og segir Árni Bjarnason að andinn í viðræðunum hafi verið góður en hins vegar sé því ekki að neita að sumar kröfur útgerðarfélagsins séu algjörlega óásættanlegar. Aðallega snúi það að mönnunarmálum og skiptaprósentu en ein krafan hafi falið í sér heimildir til að fjölga í áhöfn án þess að breyta skiptaprósentunni. "Það kemur ekki til greina að við samþykkjum það, þetta gengur þvert gegn kjarasamningunum sem blekið er varla þornað á", segir Árni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×