Innlent

Skammaði bjargvætti sína

Feðgarnir Guðmann Guðmundsson og Eðvarð Guðmannsson komu nágranna sínum til bjargar þar sem hann lá sofandi á eldhúsgólfi í rjúkandi íbúðarhúsi að Suðurtanga 2 á Ísafirði í fyrrinótt. Maðurinn rankaði við sér þegar komið var með hann út en hann kunni þó bjargvættum sínum minnstu þakkir fyrir og sagðist hafa verið í djúpri hugleiðslu. Að sögn lögreglu var maðurinn talsvert ölvaður og hafði ætlað að sjóða sér til matar með fyrrgreindum afleiðingum. Bjargvættir mannsins búa á efri hæð hússins sem er tvílyft timburhús og réðust þeir til inngöngu um glugga á neðri hæðinni þegar þeir urðu varir við megnan reykfnyk sem lagði frá íbúð nágranna síns. Þeir báru manninn út á götu, rænulítinn, en ekki tók betra við þar þegar maðurinn rankaði við sér. Hann réðst með skömmum að bjargvættum sínum og kunni þeim engar þakkir fyrir afskiptasemina. Maðurinn er frá Zimbabve og kvaðst í samtali við Fréttablaðið einfaldlega hafa orðið hræddur við þessa tvo íslensku víkinga sem stóðu skyndilega yfir sér úti á götu á Ísafirði um miðja nótt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×