Innlent

Stærsta árshátíð landsins

Ofboðslega mikið af mat og drykk er í boði í kvöld á stærstu árshátíð landsins. Hartnær 2000 starfsmenn Íslandsbanka og Sjóvár koma saman til að sletta ærlega úr klaufunum. Þegar svona hersveit kemur saman dugir ekkert minna en Egilshöllin sem er hvorki meira né minna en 24 þúsund fermetrar að stærð. Starfsfólk var í óðaönn við að búa til veislusal í höllinni í dag en alls þarf um 300 manns til að allt gangi vel fyrir sig. Matseldin ofan í svona hersingu eins og verður í höllinni í kvöld er heldur ekkert smáræði. Múlakaffi sér um veitingarnar og segir Jóhannes Stefánsson, kokkur þar, að m.a. sé um að ræða u.þ.b. 600 kíló af beinlausu kjöti, 4000 pillaðar kartöflur, 3-400 lítrar af sósu, 7-800 lítrar af léttvíni og svona megi lengi telja. Starfsmenn Íslandsbanka og Sjóvár heita 100% skemmtun í kvöld - og svo er spáð 100% timburmönnum í fyrramálið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×