Erlent

Tíu fótboltamenn hurfu

Leikmenn fótboltaliða frá Zimbabwe „hurfu“ á ferð liðs þeirra til Bretlands. Talið er að mennirnir, sem eru tíu talsins, hafi ákveðið að stinga af með það í huga að gerast ólöglegir innflytjendur í Bretlandi og eiga þar með von um nýtt og betra líf. Liðin tvö komu frá Zimbabwe til Bretlands til að leika vináttuleik við enska liðið Bradford. Eftir að ferð þeirra lauk, og liðið var á heimleið á Heathrow-flugvelli, nýttu mennirnir sér tækifærið og stungu af. Talið er að fjórðungur íbúa Zimbabwes hafist við fjarri heimaslóðunum, eða um þrjár milljónir, og eru margir af þeim ólöglegir innflytjendur í þeim löndum sem þeir dveljast í. Talið er að rekja megi þennan mikla fólksfjölda sem flýr frá Zimbabwe til pólitískrar og efnahagslegrar kreppu í landinu sem til er komin vegna einræðisstjórnarhátta forsetans, Roberts Mugabe. Fótboltamannanna tíu er nú leitað en lögreglan telur ekki miklar líkur á að þeir finnist þar sem auðvelt verði fyrir þá að hvefa í þann stóra fjölda innflytjenda sem hefst við í Bretlandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×