Erlent

Skárra en óttast var

Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður segir að sem stendur sé ástandið heldur skárra en óttast hafi verið í Houston vegna fellibylsins Rítu. Verst sé ástandið líklega þar sem miðja fellibylsins fór yfir í morgun í kringum bæina Beaumont og Lake Charles, skammt frá landamærunum að Louisina, en þaðan hafi nánast engar fréttir borist og ástandið því enn óvíst. Flestir bæjarbúar muni hafi verið flúnir. Í Houston hefur veðrið heldur færst í aukana frá því í morgun. Vesturvængur fellibylsins hefur sótt í sig veðrið og er að færa sig í vestur og yfir borgina. Gler fýkur af háhýsum og rusl fýkur um allt. Tré hafa fallið og flóð er á stöku stað þar sem bylurinn hefur farið yfir. Að minnsta kosti hálf milljón íbúa er rafmagnslaus og tilkynnt hefur verið að nokkuð hafi verið um innbrot. Engar fréttir hafa borist af manntjóni. Ingólfur Bjarni segir að sérfræðingar tali um að það geti verið að Ríta stoppi þegar hún verði komin norður fyrir Houston og snúi þá aftur og valdi því einhverjum usla fram eftir næstu viku. Fellibylurinn Ríta gekk á land í Texas og Louisiana klukkan hálfátta í morgun að íslenskum tíma. Miðja fellibylsins fór yfir suðvesturströnd Louisiana, rétt austan við borgina Sabine Pass í Texas, og mældist vindhraðinn tæpir tvö hundruð kílómetrar á klukkustund. Ríta hefur þegar farið yfir Galveston og þar standa nokkur hús í ljósum logum en nær allir íbúar voru flúnir. Eins rofnuðu flóðvarnargarðar í New Orleans og vatn flæddi um nýþurrkaðar götur, þrátt fyrir að miðja fellibylsins kæmi á land um 320 kílómetrum vestan við borgina. Fellibylurinn sveigði lítillega til austurs miðað við fyrri spár, sem þýðir að Houston mun líklega sleppa betur en ráð var fyrir gert. Um tvær milljónir manna hafa flúið borgina undanfarna daga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×