Innlent

Kári kærir Vilhjálm ritstjóra

Kári Stefánsson kærir ritstjóra Læknablaðsins til siðanefndar lækna fyrir að leyfa birtingu á grein um sig.
Kári Stefánsson kærir ritstjóra Læknablaðsins til siðanefndar lækna fyrir að leyfa birtingu á grein um sig.

Kári Stefánson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hefur kært Vilhjálm Rafnsson, ritstjóra Læknablaðsins til siðanefndar lækna fyrir að leyfa Jóhanni Tómassyni lækni að birta grein í blaðinu. Sagt var í kvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins í gærkvöldi að fimm manna ritnefnd Læknablaðsins hafi sagði af sér.

Þegar haft var samband við Vilhjálm Rafnsson ritstjóra í gærkvöldi höfðu enn engar formlegar afsagnir borist blaðinu, en nefndin fjallaði um málið á fundi í fyrrakvöld. Einn ritnefndarmanna er erlendis og hefur ekki tekið þátt í þessum ákvörðunum.

Ástæðan fyrir ókyrrðinni í ritnefndinni er grein sem Jóhann Tómasson heilsugæslulæknir ritaði í níunda tölublað Læknablaðsins þar sem hann fjallar um afleysingar Kára Stefánssonar á taugadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss í sumar.

Greinin ber heitið Nýi sloppur keisarans og í henni segir Jóhann það vera ábyrgðarleysi að leyfa Kára að stunda lækningar. Í grein sinni segir hann meðal annars: "Ferill Kára í verklegu og klínísku námi í lækna­deild Háskóla Íslands og á kandídatsári var með endemum. Um það getur heill her skólafélaga hans vitnað og fjölmargir aðrir."

Ekki náðist í Kára vegna málsins í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×